Verklagsreglur

Römpum upp Ísland hefur einsett sér að gera 1000 veitingastaði og verslanir í einkaeigu, þar sem aðgengi er ábótavant, aðgengilegar hreyfihömluðum fyrir 10. mars 2026. Þetta verður gert í góðri samvinnu við sveitarfélög, húseigendur og íbúa. Með þetta í huga hefur stjórn verkefnisins sett sér eftirfarandi verklagsreglur. Þær eru þó ekki meitlaðar í stein og geta tekið breytingum ef þurfa þykir:

1. Forgangsröðun:

Gerð 1000 rampa/upphækkana verður unnin á 4 árum. Húseigendur í þeim sveitarfélögum sem fyrst móta einfalt og aðgengilegt regluverk (sé það ekki þegar til staðar) og falast eftir samvinnu við Römpum upp Ísland, fara, eðli málsins samkvæmt, í forgang.  

Æskilegt er að sveitarfélagið auðveldi verktökum og hönnuðum framkvæmdina eins og kostur er, geri regluverkið hagstætt, útvegi gjaldfrjálst afnotaleyfi þar sem það þarf, útvegi tengilið vegna hitalagna í stétt (séu þær til staðar), útvegi bílastæði við verkstað, skanni það svæði sem auðvelt er að gera aðgengilegt og, eftir atvikum, sendi mynd með upplýsingum um hæð að hurðaropi, hurðarbreidd og breidd gangstéttar. Jafnframt er æskilegt að einföldustu umsóknirnar verði afgreiddar með dagsfyrirvara og afgreiðslu þeirra flóknari hraðað. Brýnt er að fá úthlutað aflokuðu svæði miðsvæðis til að geyma sand, hellur og þann úrgang sem til fellur á meðan á verkefninu stendur.

Römpum upp Ísland útdeilir, eins og kostur er, römpum í samræmi við höfðatölu en vel má vera að fjölförnum ferðamannastöðum verði einnig bætt við. Stjórnin áskilur sér rétt til að vinna á sem hagkvæmastan hátt og eftir atvikum að klára ákveðin svæði í einum áfanga á meðan framkvæmdir á öðrum bíða og þeim dreift eins og best hentar á tímabilinu.   

Römpum upp Ísland verður með eigið starfsfólk, staðsett á höfuðborgarsvæðinu, en reiknar með að nýta starfskrafta í heimabyggðum, sérstaklega þeim sem eru fjarri Reykjavík. Verð þarf þó að vera sem næst kostnaði RUÍ af eigin verkum.   

Áhersla verður lögð á miðsvæði þéttbýla þar sem fólk leitar helst til veitingastaða,skemmtistaða og verslana. Leitað verður samvinnu við sveitarstjórnir og íbúa umskönnun svæða með tilliti til staða sem eru óaðgengilegir hreyfihömluðum ogbæta má samkvæmt neðangreindri forgangsröðun, en almennt verður byrjað á lægstu hindrununum þar til markmiðinu er náð.

Forgangur A
Þrep að 15 cm

Forgangur B
Þrep að 25 cm

Forgangur C
Þrep að 30 cm 

Forgangur D

Hærri hindranir

Unnið verður að lausnum þar sem hurðarop er að lágmarki 83 cm og svæði fyrir innan er aðgengilegt hreyfihömluðum.

2. Jafnræði

Eins og áður sagði leitast Römpum upp Ísland eftir því að útdeila römpum til þéttbýlisstaða og, eftir atvikum, ferðamannastaða í hlutfalli við fólksfjölda. Framkvæmdir á vegum Römpum upp Ísland verður húseigendum að kostnaðarlausu. Á móti er þess vænst (en ekki krafist) að viðkomandi geri ráðstafanir, innandyra, s.s. að huga að hurðaropnara og salerni fyrir alla.

3. Umsóknir
  • Sótt er um á heimasíðu Sjóðsins; rampur@rampur.isog umsækjendum svarað við fyrsta   tækifæri í samræmi við forgangsröðun stjórnar
  • Samþykki stjórn sjóðsins umsóknina fær umsækjandi í hendur verkáætlun og, eftir atvikum, hönnunargögn. Áður en framkvæmd hefst ber umsækjanda að kynna sér viðkomandi gögn, veita upplýst samþykki og, eftir atvikum, afla samþykkis meðeiganda og gera ráðstafanir, verði röskun á rekstri á meðan á framkvæmd stendur.
  • Stjórn sjóðsins áskilur sér rétt til að samþykkja eða hafna umsóknum eftir því sem hún telur ákjósanlegt hverju sinni. Stjórnin leitast við að leysa vanda eigenda stakra húseigna þar sem reknir eru veitingastaðir eða verslanir. Stjórnin mun, eftir mætti, aðstoða þá sem sem eftir því leita og fá ekki úthlutað úr sjóðnum hvað varðar leyfisveitingar, hönnun og sértækar lausnir.